Keisarafæðing

Fyrstu dagarnir & vikurnar

Að koma sér af stað

Fyrsti dagurinn getur verið ótrúlega krefjandi og það upplifa það örugglega margar konur að þeim langar ekkert að standa upp og prófa að ganga en það er ótrúlega mikilvægt að koma sér af stað sem fyrst (með aðstoð). Það er nauðsynlegt að vera á hreyfingu til að flýta fyrir bata og einnig mikilvægt til að koma í veg fyrir blóðtappa. Það að vera á hreyfingu örvar blóðflæði um allan líkamann, örvar einnig starfsemi meltingarfæranna og virkjar vöðvana. Þú ættir að finna dagamun á þér strax fyrstu dagana en passaðu samt að ofgera þér ekki!

Göngutúrar

Um leið og þú treystir þér er gott að koma sér út í stutta göngutúra (ef veður leyfir) en það er mikilvægt að byrja mjög rólega! Ég mæli með því að fylgjast vel með því hvernig líkaminn bregst við álaginu á meðan, rétt á eftir og daginn eftir. Það er betra að fara oftar í stutta göngutúra en að fara of langt til að byrja með.

Grunnstyrkur
Grindarbotninn

Það er algengur misskilningur að konur sem fara í keisara halda að þær sleppi við grindarbotnsvandamál. Grindarbotninn er undir miklu álagi á meðgöngu og getur þurft tíma til að jafna sig. Það er því alveg eðlilegt að grindarbotninn sé slappur fyrstu vikurnar en það er strax hægt að vinna í því um viku eftir keisarann eða þegar þú treystir þér til þess og finnur ekki fyrir óþægindum. Sumar konur byrja fyrr að virkja grindarbotninn en aðrar seinna – það er ekkert hættulegt að prófa og þú finnur strax hvort þú þurfir að bíða.

Djúpu kviðvöðvarnir

Í keisara eru kviðvöðvarnir bókstaflega teknir í sundur og þeir þurfa tíma til að koma saman aftur. Það er ótrúlega persónubundið hversu lengi þeir eru að ná saman aftur en við getum reynt að flýta fyrir ferlinu og hjálpa þeim saman með því að gera sérstakar æfingar fyrir djúpu kviðvöðvana. Fyrstu vikurnar getur það eitt að finna tengingu við kviðvöðvana verið ótrúlega krefjandi en þá er gott að vera búin að æfa þessa tengingu á meðgöngu.

Hreyfing

Eftir fyrsta keisarann minn man ég að ég var ótrúlega týnd – ég vissi ekkert hvað ég mátti gera eða hvenær ég mætti byrja. Það er eins með þetta og flest annað en það er ekki hægt að setja neina ákveðna tímasetningu og það er að sjálfsögðu persónubundið. Það fer bæði eftir því hvernig keisarinn gekk, hvernig batinn hefur gengið, hvort að það hafi orðið einhver vandamál með skurðinn/örið og þess háttar. Það er því mikilvægast af öllu að hlusta á líkamann. Líklega eina ráðleggingin sem þú færð frá heilbrigðisstarfsfólki er að þú mátt ekki lyfta þyngra en barnið þitt fyrstu 6 vikurnar (og því ekki halda á því í bílstól) en það er sá tími sem skurðurinn er að gróa og við þurfum að passa okkur sérstaklega vel. Það þýðir þó ekki að við þurfum að liggja í rúminu í 6 vikur og sleppa allri hreyfingu. Eins og kom fram að ofan er hægt að byrja mjög fljótlega (í kringum viku eftir keisara) á að virkja grindarbotn og djúpu kviðvöðvana með einföldum æfingum þar sem notast er eingöngu við líkamsþyngd. Þú þarft svo að meta stöðuna á þér eftir 6 vikur og þá er möguleiki að fara að bæta inn þyngdum eða annarri mótstöðu en eins og með göngutúrana er mikilvægt að byrja rólega og sjá hvernig líkaminn bregst við breyttu álagi.

Slow and steady wins the race

Eins og hefur komið fram hér að ofan er mín helsta ráðlegging er að fara rólega af stað – við græðum ekkert á því að fara of hratt af stað. Það getur einfaldlega hægt á batanum og komið í bakið á okkur seinna. Þetta getur verið erfiður tími fyrir konur sem eru vanar að hreyfa sig mikið og vilja koma sér af stað aftur í sína eðlilegu hreyfingu en við þurfum að leyfa líkamanum að ráða ferðinni og ég get alveg lofað þér því að nokkrar vikur til eða frá skipta ekki öllu máli í stóru myndinni.

Keisaraörið

Ég verð að vera hreinskilin (og ég veit að margar konur eru sammála mér) en fræðsla og eftirfylgni með bata eftir keisarafæðingu er nákvæmlega engin. Eftir minn fyrsta keisara vissi ég nákvæmlega ekkert – ég heyrði eitthvað aðeins um að það væri gott að nudda örið en vissi í rauninni aldrei af hverju. Ég ákvað svo að demba mér í alla þá fræðslu sem ég gat fundið þegar ég var ólétt af öðru barni þar sem ég gerði einhvernvegin alltaf ráð fyrir að enda aftur í keisara þó ég hafi vissulega látið reyna á leggangafæðingu. Ég lærði svo mikið og mér finnst ég þurfa að koma þessu frá mér með einhverjum hætti.

Að nudda örið

Eftir þessa risastóru aðgerð þarf að hugsa um örið. Það geta myndast samgróninar sem geta valdið sársauka og leitt til alls kyns vandamála. Mörgum konum finnst hins vegar hræðilega tilhugsun að snerta örið og ég var alveg 100% þar! Það þarf því að byrja rólega, fyrst með því að venjast því að horfa bara á örið – svo er hægt að nota bómul eða annað til að koma í veg fyrir að þú sért að snerta örið beint.

4 vikum eftir aðgerð má byrja að nudda mjúklega í kringum örið en það þarf að bíða þar til það er alveg gróið með að fara yfir sjálft örið sem er í flestum tilfellum í kringum 6 vikum eftir aðgerð. Það er samt aldrei of seint að byrja að nudda örið en auðvitað því fyrr því betra – það er talað um að á fyrstu 6 mánuðunum eftir aðgerð náum við mestum árangri.

Ef það koma upp kvillar eða annað sem hægt er að tengja við örið mæli ég sterklega með að leita til sjúkraþjálfara til að skoða örið og fá aðstoð með meðferð.

Að lokum

Ef þú hefur einhverjar spurningar er alltaf hægt að hafa samband við mig – hér eða í gegnum instagram @bd.thjalfun – ég er nú þegar byrjuð að vinna í og get vonandi fljótlega gefið út fræðslu um bataferlið eftir keisarafæðingu en ef þú vilt fylgjast með því er hægt að skrá sig á póstlista eða fylgja mér á instagram!

Share your love

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Required fields are marked *