Um mig

Ég heiti Birna Dís og er 31 árs. Ég er verkfræðingur og þjálfari og hef sérhæft mig í þjálfun á meðgöngu og eftir fæðingu. Á minni fyrstu meðgöngu vissi ég í raun ekkert um þjálfun á meðgöngu og hélt bara áfram í CrossFit án þess að pæla í einu né neinu – ég hætti reyndar fljótlega að hlaupa því ég fann fyrir óþægindum neðst í kúluna en ég pældi lítið sem ekkert í kviðvöðvunum né grindarbotninum. Þegar það kom svo að því að byggja mig aftur upp eftir fæðinguna var ég aðeins búin að kynna mér hvernig ég ætti að snúa mér og fór á nokkur mismunandi mömmunámskeið áður en ég gat farið aftur í mína hefðbundu hreyfingu en ég fór mjög varlega og veit að það margborgaði sig. Á seinni meðgöngu var ég komin með þá þekkingu sem ég þurfti og var mun öruggari í allri hreyfingu bæði á meðgöngunni sjálfri og eftir fæðinguna. Einnig fannst mér ótrúlega gott að prófa mig áfram í alls konar æfingum og þannig vita betur hvernig ég gæti leiðbeint öðrum konum.

Ég á tvær stelpur, fæddar í ágúst 2019 og mars 2022. Báðar fæðingarnar enduðu í bráðakeisara og því hef ég haft mikinn áhuga á að kynna mér endurhæfingu eftir keisarafæðingu enn betur. Mig langaði að safna saman þeirri þekkingu sem ég hef öðlast og aðstoða konur í sömu stöðu og ég þar sem mér fannst þetta algjör óvissa. Ég vissi ekkert hvað ég mátti og hvað ég þurfti að gera til að fá sem mest út úr bataferlinu, alveg frá því strax eftir aðgerð og þar til ég var farin að geta hreyft mig eins og áður.

JRJ01437 (2)

Meðgöngu- og mömmuþjálfun

Um mitt árið 2020 fékk ég óvænt boð um að byrja með námskeið fyrir konur á meðgöngu og eftir fæðingu en fyrir það hafði ég verið að þjálfa í CrossFit Hafnarfirði og síðan í WorldFit. Mér fannst þetta ótrúlega spennandi tækifæri en fannst nauðsynlegt að sækja mér frekari þekkingu og skráði mig á námskeið hjá Pelvienne Wellness. Á námskeiðinu jókst áhugi minn á þjálfun kvenna enn meira og þá sérstaklega á þessu tímabili í lífi þeirra. Mér fannst ég læra svo mikið að ég hafði þörf fyrir að koma þeirri þekkingu áfram og ákvað því að opna instagram reikning í þeim tilgangi að fræða og vonandi hjálpa konum. Eins og staðan er núna er ég í fæðingaorlofi með yngri stelpuna mína og því ekki að þjálfa en ég var ekki alveg tilbúin að leggja þjálfaraskónna á hilluna og langaði að geta boðið upp á æfingaplön, námskeið og fræðslu. 

Ólympískar lyftingar

Árið 2014 byrjaði ég að keppa í Ólympískum lyftingum eftir að hafa fengið áhuga á að lyfta í gegnum CrossFit. Ég átti þrjú góð ár þar með alls konar meiðslum en það sem gerði endanlega útslagið voru bakverkir sem ég komst að nýlega að eru vegna ofspennu í grindarbotni og er ég að vinna í því með aðstoð sjúkraþjálfara. Ég var í stjórn Lyftingafélags Hafnarfjarðar þegar það var starfrækt og fór á þjálfaranámskeið hjá Catalyst Athletics árið 2017 (Catalyst Athletics Level 1 Certification). Ég elska að lyfta og er mitt helsta markmið að verða aftur sterk!

Umsagnir

Grindarbotn & Grunnstyrkur

Ég var hrædd við að byrja að æfa aftur eftir keisara, en þurfti svo á því að halda fyrir geðheilsuna. “Grindarbotn & Grunnstyrkur” planið frá Birnu Dís hjálpaði mér af stað og ég gat byrjað á mikilvægum æfingum fyrir líkama eftir barnsburð sem ég treysti. Prógrammið bjargaði mér og ég trúi því að það hafi gert mér kleift mér að byrja að æfa aftur af nánast fullum krafti 6 vikum eftir aðgerð. Gæti ekki mælt meira með!

Hreyfing á meðgöngu

Ég mæli svo hiklaust með fræðslubæklingnum hennar Birnu Dísar sem nær utan um svo margvíslega hluti varðandi hreyfingu á meðgöngu og góðar lausnir sem nýtast manni á meðgöngunni. Skýr, auðlesin og nytsamleg skyldulesning fyrir allar óléttar konur að mínu mati!

Sérhæft plan

Birna Dís gerði sérhæft prógram fyrir mig eftir keisara. Ég fann strax mun á líkamanum eftir 2 vikur. Það voru æfingar sem ég gat ekki gert og þá var Birna með aðrar í staðinn. Eftirfylgnin skipti mig samt mestu máli, þá komst ég ekki upp með að sleppa æfingu.